Quantcast
Viewing latest article 9
Browse Latest Browse All 111

Viðurkenning RÚV | Acknowledgement

Image may be NSFW.
Clik here to view.
RUV-8-jan-2025.jpg

Lof og prís! Það voru óvænt og ánægjuleg tíðindi sem mér bárust í fyrstu viku janúarmánuðar: Ég var þess heiðurs aðnjótandi að fá viðurkenningu úr Rithöfundasjóði Ríkisútvarpsins, en sjóðurinn er einn af elstu menningarverðlaunum landsins, hefur verið starfræktur frá árinu 1956. Að viðstöddu fjölmenni þann 8. janúar voru veittar margvíslegar Menningarviðurkenningar RÚV fyrir árið 2024, þar á meðal hlaut Mugison viðurkenningu Rásar 2, Krókinn, fyrir framúrskarandi tónlistarflutning á árinu og Birnir Jón Sigurðsson hlaut hvatningarverðlaun Rithöfundasjóðs Ríkisútvarpsins. Tilkynnt var um styrki úr Tónskáldsjóði Ríkisútvarpsins og STEFs og einnig var tilkynnt um orð ársins 2024. Afhending fór fram í beinni útsendingu í Útvarpshúsinu. 

Í rökstuðningi dómnefndar kom m.a. þetta fram: 

„Viðurkenningu Rithöfundasjóðs Ríkisútvarpsins hlýtur Áslaug Jónsdóttir fyrir fjölbreytt verk sín og framlag til íslenskra bókmennta, barnamenningar og myndlistar. Áslaug er fjölhæfur listamaður en auk þess að skrifa bækur sem eiga sér aðdáendur á öllum aldri, hérlendis og víða um veröld, er hún mikilvirkur myndskreytir og hönnuður.

Hugkvæmni, húmor og virðing fyrir fjölbreytileika alls lífs eru ákveðin leiðarstef í höfundaverki Áslaugar. Af skrifum hennar má margt gott og gagnlegt læra, en líka hrífast, verða hissa og hugsa hluti upp á nýtt.

Frá árinu 1990 hefur Áslaug ritað og myndlýst fjölda barnabóka, skrifað ljóð og leikrit, auk þess að taka þátt í myndlistar- og bókverkasýningum. Hennar nýjustu sköpunarverk eru ljóðabókin Til minnis og limrubókin Allt annar handleggur, sem komu út árið 2023 og bókin Skrímslaveisla sem kom út í fyrra (2024).“

Neðst á síðunni má finna þakkarræðuna. 

Happy and proud! Unexpectedly I received wonderful news in the first week of January: I was very honoured to receive an award from the Icelandic National Broadcasting Service’s Writers’ Fund, one of the oldest cultural awards in the country, established in 1956. The award ceremony for INBS’s Cultural Awards 2024 took place in a live program at the broadcasting house, also presenting music awards, the Word of the Year and more. 

The jury’s reasoning included, among other things:

“The Icelandic National Broadcasting Service’s Writers’ Fund award goes to Áslaug Jónsdóttir for her diverse artworks and contribution to Icelandic literature, children’s culture and visual arts. Áslaug is a versatile artist, but in addition to writing books that have fans of all ages, in Iceland and around the world, she is also a prolific illustrator and designer.

Ingenuity, humor and respect for the diversity of all life are guiding principles in Áslaug’s work. From her writings, one can learn many good and useful things, but also be fascinated, surprised and invited to think things over in new ways.

Since 1990, Áslaug has written and illustrated a large number of children’s books, written poems and plays, in addition to participating in art and book art exhibitions. Her most recent works are the poetry books ‘Til minnis’ and ‘Allt annar handleggur’, which were published in 2023, and the children’s book ‘Skrímslaveisla’, which was published last year (2024).”

My thank you speech (in Icelandic) is below. 

Tenglar | Links:
Image may be NSFW.
Clik here to view.
◼
︎ Upptaka af beinni útsendingu frá afhendingu Menningarviðurkenninga RÚV 8. janúar 2025 |
The prize award ceremony, live program recorded at The Icelandic National Broadcasting Service.

Image may be NSFW.
Clik here to view.
◼
︎ Viðtal í Viðsjá, RÚV 9. janúar 2025 |
Interview in Víðsjá radio program RÚV (INBS) Jan 9, 2025.

Image may be NSFW.
Clik here to view.
◼
︎ RÚV frétt 8. janúar 2025 |
The Icelandic National Broadcasting Service, news Jan 8, 2025

Image may be NSFW.
Clik here to view.
◼
︎ Frétt á vef RSÍ |
The Writers’ Union of Iceland news site.

Image may be NSFW.
Clik here to view.
◼
︎ Frétt á vef Forlagsins |
Forlagið publishing house news site
.


Image may be NSFW.
Clik here to view.
RUV-8-jan-2025-2.jpg

 

ÞAKKIR
(eða: að hljóta viðurkenningu frá Ríkisútvarpinu
með 50 ára millibili)

Ráðherra, útvarpsstjóri, valnefndir og góðir áheyrendur!

Hjartans þakkir! Það er mikill heiður að hljóta viðurkenningu sem er kennd við Ríkisútvarpið, rótgróna menningarstofnun sem hefur verið mikilvægur hluti af daglegu lífi eins lengi og ég man eftir. Að fá verðlaun fyrir það sem ég hef starfað við megnið af ævinni, það gleður, hvetur og eflir. Það fær mig til að líta um öxl og það endurlit nær nú bara furðu langt aftur!

Það var til dæmis í þá tíð þegar tónlist og talað mál fengu að hljóma upphátt á heimilum. Nú heyrist varla tónn á milli hæða eða út um glugga. Við sveimum um í okkar eigin hljóðheimum með hlaðvörp og lagalista í heyrnartólum. Það hefur sína kosti en tímarnir eru sannarlega breyttir: sameiginleg hlustun eða áhorf heyra nánast sögunni til.

Ég held að í sveitinni hafi verið útvarp í svo til hverju herbergi. Dagskráin var spiluð eins og hún lagði sig frá morgni til kvölds einhvers staðar í húsinu: Í eldhúsinu, stofum og svefnherbergjum, í fjósinu og meira að segja í kartöflugarðinum. Við vildum alls ekki missa af miðdegissögunni svo rafhlöðu-drifnu útvarpi var dröslað með um garðinn. „Grænn varstu dalur“  í lestri Óskars Halldórssonar var alveg kjörinn til hlustunar þar sem við grófum okkur í gegnum moldina.

Auðvitað voru sögustundir barnatímans uppáhald og raddir lesaranna ógleymanlegar. Enginn var of gamall eða ungur fyrir Þorleif Hauksson og Bróðir minn ljónshjarta. Silju Aðalsteinsdóttur og Sautjánda sumar Patreks. Svo var það líka útvarpsleikhúsið magnaða og óskalögin öll: það skipti engu máli hvort þau voru ætluð sjómönnum eða sjúklingum, ungu fólki eða öldungum, hvort það var jazzinn hans Múla eða messurnar – við vorum alætur á útvarpsefni. Fréttatímar og lífsnauðsynlegar veðurfréttir voru helgistundir. Veðurstöðvarnar og sérstök staðarnöfnin mótuðu alveg einstakt landakort í huganum og í hlutföllum sem fundust ekki í kortabókum.

Nú er ég alveg að missa mig í nostalgíunni. Ég vil taka fram að ég er líka alsæl í núinu með hlaðvarpsþætti RÚV í eyrnasniglunum seint og snemma. Þó það nú væri!

En í þessu endurliti til bernskunnar rifjaðist upp fyrir mér að þetta er reyndar ekki fyrsta viðurkenningin mín frá Ríkisútvarpinu. Fyrir sléttum 50 árum – í janúar 1975 var efnt til samkeppni í barnatímanum og ég tók auðvitað þátt. Einhverjum vikum síðar fékk ég upphringingu um sveitasímann frá umsjónarmanni barnatímans, Gunnari Valdemarssyni, með tilkynningu um viðurkenningu fyrir myndir sem ég hafði teiknað við hinn ægilega ljóðabálk Stjörnufák eftir Jóhannes úr Kötlum.

En það var sem sagt í boði Ríkisútvarpsins að ljóðið var lesið upp í barnatímanum og ungir áheyrendur máttu senda inn myndræna túlkun sína. Þeir sem þekkja ljóðið vita að það er engin barnagæla. Ef það væri lesið í fréttatíma í dag myndi fylgja svona athugasemd: „við vörum við myndunum …“

„Einn hann stóð í auðnarríki
yfir hinu bleika líki …“

Barnaefnið 1975! Og ljóðinu lýkur svo:

„Jörðin tók að titra og stynja,
– tröllaborgin var að hrynja:
Loksins eftir langa mæðu
laukst nú saman þeirra gröf.“

En þetta var mjög ánægjulegt allt saman og ég naut mín með blað og blýant og sendi inn myndir sem seinna voru svo birtar í Stundinni okkar í sjónvarpinu.

Samtalið þarna um sveitasímann var nú ekki ýkja langt eða fjálglegt en ég man að Gunnar hrósaði mér fyrir líflegar og sannverðugar myndir: ég hlyti að hafa komið oft í stóðréttir! Nei, svaraði þessi 11 ára verðlaunahafi: aldrei.

Svona kom ímyndunaraflið sér strax vel!

En sköpunargleðin vex ekki úr engu. Hana þarf að næra svo hún vaxi og dafni. Hún þrífst á listinni sem fyrir er, til dæmis dramatískum ljóðum sem reyna á barnshugann, á því sem vel er gert og eftirminnilega. Sumt síast inn með tímanum og við skulum aldrei vanmeta börn og lítillækka þau með of auðmeltu efni.

Manneskjan þráir sögur, að fræðast og forvitnast til að skilja sjálfa sig. Til að fá botn í  þennan margslungna heim sem er jafn óskiljanlegur og mótsagnakenndur og hann hefur alltaf verið. Í dauðaleit skrunum við gegnum örsögur á samfélagsmiðlum í von um snert af hugljómun. Kjarni manneskjunnar er sá sami, þó umhverfið og sögurnar breytist. Og okkur skortir ekki sögurnar og raddirnar: þær flæða í stríðum straumi. Okkur skortir öllu heldur næði til að njóta og skynja og mögulega greina hismið frá kjarnanum – hreina tóninn í öllu skvaldrinu – og þá kannski, bara kannski, – náum við að skilja eitthvað ofurlítið. Stundum þurfum við líka það sem við óttumst mest í útvarpi: einfaldlega: – – – – – þögn.

Ég þakka fyrir mig.

Áslaug Jónsdóttir, 8. janúar 2025

Ljósmyndir | Photos: Kristrún Heiða Hauksdóttir 08.01.2025


Viewing latest article 9
Browse Latest Browse All 111

Trending Articles